Á bleikum náttkjólum

Megas og Spilverk þjóðanna

Megas hefur í gegnum tíðina unnið með ótal tónlistarmönnum, bæði einstaklingum og hljómsveitum. En aldrei hefur myndast jafn mikil spenna og í kringum samstarf hans og hljómsveitarinnar Spilverk þjóðanna árið 1977. Spilverkið sem spilaði þjóðlagaskotna popptónlist starfaði í nokkur ár áður en liðsmenn þeirra stofnuðu seinna Þursaflokkinn og Stuðmenn. Tónlist Megasar og Spilverksins var harla ólík og margir höfðu efasemdir um að þetta myndi ganga upp, aðrir voru mjög forvitnir um afurðina. Hljómsveitin æfði fyrir uptökurnar í heimahúsi í Bergstaðastrætinu og svo var haldið til Hafnarfjarðar í upptökuverið Hljóðrita. Upptökustjórinn var Jónas R. Jónsson (úr Flowers) og hann minnist plötunnar á þennan hátt:
„Ein allra eftirminnilegasta platan sem ég tók upp…bandið, allt live í grunninn…allir í toppformi.“

Það að platan var tekin upp live gefur henni mikinn sjarma og karakter. Söngurinn var að vísu tekinn upp sérstaklega að hluta. Jónas minnist þess að Megas hafi orðið mjög stressaður fyrir söngupptökuna. Þá var brugðið á það ráð að redda einhvers konar morfínmixtúru sem Megas svo teigaði. Eftir það söng hann allar upptökurnar í einni beit og negldi þær allar í fyrstu töku. Jónas segir að Megas og Spilverkið hafi ekki spilað inn á þessa plötu í hefðbundnum skilningi heldur „performerað“. Ekki má vanmeta þátt utanaðkomandi tónlistarfólks sem kom að plötunni, sérstaklega ekki Karls Sighvatssonar sem lék lystivel á hljómborðið en þó á hógværan hátt.

Platan var gefinn út af bókaforlaginu Iðunni og það var forstjórinn Jóhann Páll Valdimarsson (seinna í Forlaginu) sem fékk ungan myndlistarmann, Kristján Frímann Kristjánsson, til að hanna umslagið fyrir plötuna sem átti að heita Á bleikum náttkjólum. Kristján, sem er einn helsti áhugamaður um íslenskar vínylplötur í dag, tók boðinu þó að hann hefði efasemdir um gæði plötunnar.

„Það gengur aldrei að tefla saman svona ólíkum listamönnum, það er eins og að draga saman skoffín og skuggabaldur og ætlast til að útkoman verði einhyrningur!“

Þegar ferlið hófst hreifst hann þó með og hann hefur sagt þennan tíma þann mest gefandi á öllum listferli sínum. Umslagið átti að verða þrívíddar samtíningur (collage) og uppsett í nýkeyptu húsi Iðunnar að Bræðraborgarstíg. Inn í leikmyndina voru settir alls kyns furðumunir, s.s. luger-skammbyssa, upptrekkt þyrla, spilastokkur og svo auðvitað gínurnar. Hljómsveitarmeðlimir voru síðan sjálfir uppstrílaðir sem gínur fyrir myndatökuna. Ef grannt er skoðað má sjá að einn meðlim Spilverksins vantar á myndina, þ.e. sjálfan Egil Ólafsson. Því að hann einfaldlega skrópaði. Þrátt fyrir vöntun Egils þykir umslagið eitt það best heppnaða í íslenskri tónlistarsögu.

megasÞetta merkilega umslag hentar plötunni ákaflega vel því að hún er almennt talinn með þeim betri í poppsögu landsins. Árið 1983 var hún kosin besta plata Íslandssögunnar, í könnun sem birt var í Poppbókinni. Árið 2001 hafnaði platan í þriðja sæti yfir bestu plöturnar í bókinni Eru ekki allir í stuði? En þá var það dómnefnd sem valdi og einungis Sigur Rós (Ágætis byrjun) og Björk (Debut) voru ofar. Árið 2009 var aftur gerð könnun meðal landsmanna og aftur hafnaði hún í þriðja sæti. Þetta sýnir glöggt í hversu miklum metum hún er meðal landsmanna og að tilraunin með skoffínið og skuggabaldurinn hafi algerlega tekist. Á bleikum náttkjólum var endurútgefin í fyrsta sinn á vínyl árið 2015.