Alison Krauss & Union Station

Bluegrass tónlist varð til í Appalachia fjöllum í austur og suðurhluta Bandaríkjanna en á rætur að rekja til þjóðlagatónlistar Bretlandseyja. Spilið er oft á tíðum hratt og notuð eru óvenjuleg hljóðfæri á borð við banjó og mandólín. Bluegrass er yfirleitt sett undir sama hatt og country-tónlist, enda mikill samgangur þar á milli, en bluegrass sker sig þó úr vegna þess hversu mörg lög eru án söngs. Tónlistarstefnan átti sína gullöld á fimmta og sjötta áratugnum þegar tónlistarmenn á borð við Bill Monroe, Flatt & Scruggs og The Foggy Mountain Boys voru uppi en síðan féll hún úr tísku. Bluegrass minnti þó á sig árið 1972 þegar kvikmyndin Deliverance kom út og lagið “Dueling Banjos” varð vinsælt. Sú mynd gerði einmitt út á hina stereótýpísku hlustendur bluegrass tónlistar, þ.e. óhreina og ólæsa sveitavarga sem plagaðir eru af skyldleikaræktun. Bluegrass virtist ekki eiga sér viðreisnar von.

ali-krause

Alison Krauss kom fram á sjónarsviðið undir lok níunda áratugarins einungis 16 ára gömul. Hún þótti afburða söngkona og fiðluleikari og fékk plötusamning hjá Rounder Records sem sérhæfa sig í útgáfu þjóðlaga og blústónlistar. Það var sett saman band fyrir hana sem kallaðist Union Station og plöturnar fóru að rúlla út. Fáar konur hafa spilað bluegrass í gegnum tíðina og Krauss passaði ekki alveg inn í stereótýpuna. Hún var með ákaflega hljómþýða rödd, líkt og gospel söngkona, og hafði útlit og framkomu í samræmi við það. Í upphafi náði hún þó aðeins vinsældum í hinum þrönga heimi bluegrass hlustenda. Um miðjan tíunda áratuginn voru gerðar mannabreytingar í hljómsveitinni. Inn komu Dan Tyminski söngvari og gítarleikari og Jerry Douglas dóbró-leikari og þá fór boltinn að rúlla. Hljómsveitin fór að vekja athygli innan alls country-samfélagsins sem eitt best spilandi tónleikaband sem til væri. Krauss og hljómsveitin sönkuðu að sér verðlaunum og seldu plötur í massavís. Árið 2000 náði hljómsveitin svo heimsfrægð þegar T Bone Burnett hafði samband og bað þau um að taka þátt í gerð tónlistar fyrir kvikmynd Coen bræðra, O Brother, Where Art Thou? Sú plata vann Grammy verðlaun sem plata ársins og gerði bluegrass kúl aftur. Í myndinni ljáði Tyminski leikaranum George Clooney rödd sína í laginu „I Am a Man of Constant Sorrow”.

1166105152_1024x1024

Líkt og í country tónlist þá er sterk hefð fyrir ábreiðum í bluegrass. Á plötum Krauss er blanda af ábreiðum úr ýmsum geirum tónlistarinnar, hefðbundnum þjóðlögum og frumsömdu efni frá öllum hljómsveitarmeðlimum. Krauss hefur þó sagt sjálf að tónlistin njóti sín betur á sviði en úr hljóðveri. Því kemur það ekki á óvart að eina tónleikaplata hljómsveitarinnar, Live, sé hápunktur ferilsins. Platan var tekin upp í Kentucky árið 2002 og á henni skín þéttleiki og færni hljómsveitarinnar í gegn. Eftir þessa velgengni hefur Krauss náð að halda sér á vissum stalli en er þó ekki hrædd við að taka áhættur. Árið 2007 leiddi áðurnefndur Burnett hana og gamla rokkhundinn Robert Plant saman. Burnett valdi nokkrar ábreiður fyrir þau og útkoman var platan Raising Sand sem fékk mikið lof gagnrýnenda og seldist í bílförmum. Þrátt fyrir að vera aðeins 45 ára (og rétt að byrja að eigin sögn) þá er Krauss verðlaunaðasti núlifandi tónlistarmaðurinn á Grammy verðlaunahátíðinni, ásamt Quincy Jones, með 28 styttur í farteskinu. Einungis einn maður hefur unnið fleiri verðlaun í sögunni (31) og því má fastlega gera ráð fyrir því að hún slái metið á komandi árum. Nú er væntanleg platan Windy City sem er fyrsta sólóplata hennar í 17 ár.