AM SELST Í BÍLFÖRMUM … ENNÞÁ

Fáar plötur í seinni tíð hafa notið meiri velgengni á vínyl en AM plata Arctic Monkeys, sem kom út 9. september 2013, eða fyrir um tveimur og hálfu ári. Platan varð fljótt mest selda nýja vínylplata ársins í Bretlandi, það er á útgáfuárinu, en árið 2014 var platan einnig á meðal þeirra mest seldu. Hún var mest selda rokk vínylplatan, en þriðja sæti á heildina litið. Í fyrra var hún svo áfram á lista yfir mest seldu plöturnar, og komast á listann yfir þær tíu efstu.

Hvers vegna hefur platan selst svona vel? Það er erfitt að svara því skýrt, en hið augljósa er að platan er frábær frá upphafi til enda, þegar horft er eingöngu til tónlistarinnar. Textar eru ær og kýr forsprakkans Alex Turner, og þeir eru afar sterkir á plötunni. Rokkið ristir djúpt og það gleður alltaf þá sem hafa fyrir því að setja plötuna undir nálina.

Ross Orton og Rancha De La Luna sáu um upptökustjórn á plötunni, en þeim til aðstoðar – auk meðlimana í hljómsveitinni – var Josh Homme, söngvar og lagasmiður Queens of The Stone Age. Hann syngur auk þess í einu lagi (Knee Socks) og gaf hljómsveitinni góð ráð á meðan upptökur stóðu yfir, frá ágúst 2012 til júní 2013. Einungis tveimur mánuðum eftir að þeim lauk var platan komin út. „Hún verður ekki betri,“ sagði Turner þegar vinnunni var lokið, og hrósaði sérstaklega Homme fyrir að vera hljómsveitinni innan handar.

Eitt af því sem AM hefur einnig skapað sér vinsældir fyrir, er framúrskarandi hönnun á plötuumslagi. Það þykir hafa yfir sér tímalaust yfirbragð, sem ýtt hefur undir vinsældir vínylplötuútgáfunnar. Líklega verður hún að tímalausri snilld eftir því sem árin færast yfir, því vísbendingar eru nú þegar komnar fram um að platan verði í meistaraverkarekkanum hjá rokkunnendum í framtíðinni.

Lög plötunnar

1 Do I Wanna Know? 4:32
2 R U Mine? 3:20
3 One for the Road 3:26
4 Arabella 3:27
5 I Want It All 3:04
6 No. 1 Party Anthem 4:03
7 Mad Sounds 3:35
8 Fireside 3:00
9 Why’d You Only Call Me When You’re High? 2:41
10 Snap Out of It 3:12
11 Knee Socks 4:17
12 I Wanna Be Yours 3:04