BOWIE-ANDINN Í LOFTINU Í DÁSAMLEGRI BÚÐ

Síðustu sýningu Lazarus lýkur og inn á sviðið á Broadway gengur fulltrúi frá Bill De Blasio, borgarstjóranum í New York, öllum af óvörum. Þetta var að kvöldi 20. janúar, en söngleikurinn – sem byggir á einu laginu á síðustu plötu David Bowie, Blackstar – hafði þá gengið fyrir fullu húsi frá frumsýningu, um það leyti sem Bowie lést vegna krabbameins, hinn 10. janúar. Söngleikurinn var hluti af epískum dauða Bowie sem Blackstar fangar með dramatískum hæðum og lægðum spurningana um líf og dauða, sem Bowie sjálfur tókst á við þegar platan var tekin upp.

Ögraði alla leið

Fulltrúi New York borgar tilkynnti um það að framvegis yrði 20. janúar David Bowie-dagurinn í New York, þar sem hann bjó síðustu 25 ár ævi sinnar og dvaldi mikið allan sinn feril. Það er ekki meiningin að fjalla um Blackstar í þessum pistli en sjálfsagt að nefna það, að hún verður betri og betri við hvern hring sem hún snýst á plötuspilaranum. Stórkostlegt meistarastykki, eins og Bowie var von og vísa, en enginn gat samt séð fyrir að hann myndi falla frá með þessum frumlega og listræna hætti. Hann ögraði fram á grafarbakkann, og magnaði þannig skilaboðin sem hann sendi frá sér allan ferilinn, um algjört frelsi til að fara eigin leiðir.

Plötubúðin í „sollinum“

Bowie var New York-er, og talaði um sig með þeim hætti stoltur. Hann bjó í „sollinum“ á Manhattan, skammt frá Washington Square. Hann féll nær alveg inn í fjöldann í borginni og reyndi að láta ekki mikið fyrir sér fara. Hann átti sér uppáhaldsbúðir og staði sem hann heimsótti oft, eins og gengur. Ein þeirra var plötubúðin Bleecker Street Records, í næsta nágrenni við Washington Square Park inn í Greenwich Village hluta Manhattan.

Vínyllinn heimsótti búðina á dögunum, meðvitaður um dálæti Bowie á henni, og raunar fjölmargra annarra en búðin hefur á sér einkar gott orð. Á vef verslunarinnar er frábær þjónustuna, þar sem hægt er að panta plötur úr ákveðnum tónlistarstefnum og senda fyrirspurnir um allt sem snýr að vínylplötum. Þeim er svarað ítarlega, eins og Vínyllinn komast að, og eru gestir síðan hvattir til að koma í búðina og kynna sér úrvalið. Þjónusta við safnara er í fyrirrúmi en búðin hefur líka yfir sér mikinn New York-blæ, þar sem fjölbreytnin er í fyrirrúmi og litadýrðin mikil.

Plötur í loftinu

Þegar inn í búðina er komið þá berst maður ósjálfrátt að stórum plöturekkum sem eru sitt hvoru megin. Plöturnar eru í stafrófsröð, en einnig skiptar eftir tónlistarstefnum. Stórt safn af New York-skotnum djass er í boði, og það má segja um tilraunakennt popp og rokk sem einkennt hefur tónlistarsenuna í New York áratugum saman. Alveg eins og einkenndi Bowie alla tíð, þá hafa stærstu nöfnin í tónlistarlífinu í New York – það er þeir sem hafa búið þar og starfað – oft ögrað ríkjandi viðhorfum og stefnum. Má nefna Peter Gabriel, Miles Davis, The Strokes og Aliciu Keyes því til staðfestingar, að ógleymdum Bowie sjálfum.

bleeker

Vonandi dettur verslunarstjórum Bleecker Street Records það ekki í hug að breyta þessari búð neitt. Hún er dásamleg eins og hún er, og tekst að viðhalda sönnum Bowie-anda fjölbreytninnar, með góðu efnisvali og metnaðarfullu útliti. Það eina sem getur ógnað tilveru búðarinnar er líklega hátt leiguverð, vegna þess hvar hún er staðsett, en þá ber okkur vínylunnendunum skylda til þess að rétta fram hjálparhönd. Og kaupa plötur í búðinni.

Sjá: „How to Experience David Bowie’s New York“