ER ENN AÐ SETJA ÞÆR UNDIR NÁLINA

Sigurjón Kjartansson, forsprakki HAM og einn fremsti kvikmyndahandritahöfundur Íslands um þessar mundir, hefur hlustað mikið á vínylplötur alveg frá því hann fékk fyrstu plötuna. Ennþá fara þær sem komu fyrst í safnið undir nálina og gleðja sem aldrei fyrr.

Þungarokkið stendur Sigurjóni nærri – eins og gefur að skilja – en það gera hinar ýmsu tónlistarstefnur sömuleiðis. Tilraunaskotin raftónlist níunda áratugarins, sem var sérstaklega áhrifamikil í Þýskalandi og Mið-Evrópu, var í miklu uppáhaldi hjá Sigurjóni, og er enn. „Mín uppáhalds vínylplata er sennilega Alles ist gut með hinni frábæru hljómsveit DAF (Deutsche Amerikanische Freundschaft) frá árinu 1981. Á þessari plötu er hljómsveitin aðeins skipuð tveimur náungum Robert Görl og Gabi – annar spilaði á syntheseizer og trommur og hinn sá um sönginn. Hún var pródúseruð af hinum goðsagnarkennda Conny Plank sem setti mark sitt á rafsveitir þessa tíma – allt frá Kraftwerk og Neu! og er einnig á bak við hina ágætu plötu Vienna, með Ultravox. Alles ist gut keypti ég hjá Ása í Gramminu árið 1984 og á hana enn. Eintakið er enn í fínu standi miðað við hvað ég hef spilað það fáránlega oft,“ sagði Sigurjón, aðspurður um hvað væri hans uppáhaldsvínylplata.

Vínyllinn Alles ist gut með hljómsveitinni DAF

Vínyllinn Alles ist gut með hljómsveitinni DAF

Fleiri koma upp í hugann. Unglingsárin, með öllum sínum mótunarkröftum, voru undir miklum áhrifum af innreið Utangarðsmanna. Áhrif á meistaraverki þeirra, Geislavirkir, voru mikil og djúpstæða á að minnsta kosti eina kynslóð Íslendinga sem voru teknir heljartaki af Bubba Morthens. Sigurjón fékk hana í jólagjöf þegar hann var tólf ára. „En ég á fleiri uppáhaldsvínla sem hafa spilað stóra rullu í mínu lífi: Utangarðsmenn – Geislavirkir, fékk þá plötu í jólagjöf þegar ég var 12 ára. Á hana enn – í fínu standi. Þeyr – Þagað í hel. Þessi plata kom út í mjög takmörkuðu upplagi enda var pressan gölluð. Ég set hana enn á fóninn. Og svo má nefna fyrstu plötuna með Killing Joke – kom út ’80 og ég keypti mitt eintak ’83. Snýst enn á fóninum,“ segir Sigurjón.