GOÐSÖGN ÞAGNAR … EN SAMT EKKI ALVEG

Þrátt fyrir að margar plötubúðir í New York séu eldri en Other Music, á 4. stræti austanmegin á Manhattan, þá hefur hún skapað sé sess sem hálfgerð goðsögn í tónlistarsenu borgarinnar. Hún var formlega opnuð 1995, og náði strax að skapa sé nafn sem heimavöllur sköpunar og hugmynda.

Tónleikar í búðinni
Búðin lagði upp með leyfa upprennandi tónlistarmönnum að halda tónleika, og kynna tónlist sína. Þetta reyndist afdrifaríkt í meira lagi. Elliot Smith, The National og DJ Shadow héldu öll tónleika í búðinni, og varð hún fræg í New York fyrir líflegheit og metnaðarfulla þjónustu við tónlistaráhugafólk. 

Það sem nú hefur bundið enda á tilveru Other Music sem plötuverslunar er hátt leiguverð, og erfiður rekstur. Þrátt fyrir stóran hóp fastra viðskiptavina, og ágætar sölutölur í samanburði við margar aðrar verslanir, þá hefur það reynst erfitt að halda úti metnaðarfullri verslun á dýrum stað í borginni.

othermusic

Eins og áður segir er það nú fullreynt, og verður búðinni lokað 25. Júní. En vörumerkið Other Music, og andinn sem hefur svifið yfir vötnum frá stofnun, verða enn til. Útgáfufélagið Other Music Recordings, sem stofnað var í samvinnu við Fat Possum árið 2012, mun starfa áfram, en helsta markmið þess er að gefa efnilegum tónlistarmönnum, einkum í New York, færi á að láta ljós sitt skína.

Styðjið góða tónlist!
Í fréttatilkynningu frá Josh Modell, eiganda verslunarinnar til margra ára, segir að Other Music muni halda áfram að halda kyndli nýsköpunar í tónlist á lofti. „Other Music hefur með stolti unnið beint með mörgum hæfileikaríkum tónlistarmönnum og áhrifamiklum listamönnum og útgáfufélögum. Meira en nokkuð annað, þá er það ástríðan frá viðskiptavinum sem hefur verið drifkrafturinn í okkar starfsemi. Í búðinni hafa verið seldar milljónir platna frá stofnun, hún hefur unnið til verðlauna og við höfum haft áhrif. En tímarnir breytast. Viðskiptin breytast og borgin hefur breyst. En plöturnar munu halda áfram að snúast, og ég bið aðeins um eitt: að þið haldið áfram að styðja við góða tónlist, hvar sem þið getið,“ sagði Modell í tilkynningu í tilefni af því að búðin lokar senn.

nationalom

Sköpun í loftinu
Búðin sjálf er einstaklega metnaðarfull og þægileg í umgengni. Hún er með ferskri „ritstjórn“, það er að starfsfólkið í búðinni leggur upp með að fylgjast vel með því nýjasta sem er að gerast, og setja þannig tóninn fyrir það sem koma skal. Plötuúrvalið er með ólíkindum. Allir straumar og nýjustu stefnur. Eftir að sala á vínylplötum tók að aukast á nýjan leik, fyrir um sex árum, þá hefur búðin markað sér stefnu sem ferskasta vínylplötubúð New York-borgar, þó erfitt sé að eigna sér þann titil. Hátt er til lofts, en nýting á plássinu fer að mestu undir geisladiska og plötur, nema hvað. Vínyllinn mælir sérlega með heimsókn í þessa búð (Þið hafið rúmlega þrjár vikur!). Þó búðin lok brátt, þá þagnar Other Music ekki, því útgáfustarfsemin mun vafalítið verða lífleg áfram líkt og hingað til.