GÓÐUR ANDI Í GÖMLU HÚSI

Westsider Records er á Upper West Side, á Manhattan, við 72. stræti. Sú búð er sögufræg fyrir að vera vönduð vínylplötubúð þar sem má finna vandaðar plötur og fá góða leiðsögn frá starfsmönnum búðarinnar, sem þekkja vínylandann í New York betur en flestir aðrir.

Bækur og vínyll
Vínyllinn átti leið í búðina, einu sinni sem oftar, á dögunum, og kom þá við í lítilli verslun sem er rekin undir merkum Westsider Records, og heitir Westside Books and Records (Stundum nefnd Westsider Used and Rare Books, en starfsmaðurinn í búðinni benti mér með áherslu á hið rétta heiti). Eins og nafnið gefur til kynna er þetta bókabúð og vínylplötubúð, hvorki meira né minna. Hún er á tveimur litlum hæðum, og var bókum snyrtilega raðað í jaðrana á stigaþrepunum upp á aðra hæðina. Rýmið er vel nýtt.

Woody Allen
Verslunin er á milli 80sta og 81sta strætis við Broadway, og það er auðvelt að láta hana fara framhjá sér. Hún er lítil og nett og inngangurinn vart sýnilegur. En um leið og stigið er inn fyrir dyrnar, tekur á móti manni hlýlegt andrúmsloftið. Þetta svolítið eins og að koma inn í stofu í gömlu húsi þar sem er góður andi. Plata undir nálinni og nóg af fallegum bókum allt um kring. Upp á vegg hangir mynd af starfsfólkinu með Woody Allen, þeim mikla sendifulltrúa New York borgar í menningarlífi heimsins. Hann er reglulegur gestur í þessari búð og það finnst starfsfólkinu greinilega skemmtilegt.

WestSide Records-2

Tveir rekkar
Í búðinni eru tveir rekkar með vínylplötum. Í þeim er að finna gamlar plötur og nýjar, notaðar og ekki notaðar. Eins og í Westsider Records á 72sta stræti þá er lagt upp með að hafa gott jafnvægi í titlavali, þannig að það sé líklegt til þess að höfða til þeirra sem koma í búðina – í þessu tilfelli til þess að finna góðar bækur.

Eftir að hafa flett í gegnum um rekkana þá var greinilegt að starfsmenn verslunarinnar voru að miða titlavalið við það, að fólk á aldrinum 45+ væri mest að versla í henni. Plötur með Kinks, Bítlunum, The Who og fleiri stórböndum frá gamalli tíð, voru áberandi, en það mátti einnig greina plötur sem þar sem cover-in urðu áberandi og mikið til umræðu. Just Another Night með Mick Jagger, og stílhrein andlit Donnu Summer og Barböru Streisand mátti sjá utan á einum rekkanum. Starfsmaður í verslunni sagði mér að þau reyndu að hafa alltaf falleg cover utan á rekkunum, sem væru í takt við áherslurnar hverju sinni.

WestSide Records-3

Vínyllinn mælir eindregið með Westsider Records á 72sta stræti en ekki síður hinni afar skemmtilegu bóka- og vínylplötuverslun á milli 80sta og 81sta strætis við Broadway, sem hér er lýst. Þar er margt skemmtilegt að finna, en það sem helst situr eftir er góður andi og metnaðarfull „ritstjórn“ á því sem fæst í búðinni. Hver bók er vel valin og það sama gildir um plöturnar.