Gullplatan á Voyager

Árið 1977 var tveimur ómönnuðum geimförum, Voyager I og II, skotið af stað frá Flórída í Bandaríkjunum. Tilgangur þeirra var að rannsaka fjórar ytri pláneturnar í sólkerfi okkar. Geimförin áttu svo að fara út úr sólkerfinu og senda gögn til Jarðar meðan þær hefðu orku til. Einn fremsti geimvísindamaður síns tíma, Carl Sagan prófessor við Cornell háskóla og ráðgjafi hjá NASA, bað um að fá að senda plötur með flaugunum. Tilgangurinn var sá að gefa lífverum á öðrum plánetum, þ.e. geimverum, tækifæri á að kynnast lífinu á Jörð. Ljóst var að Voyager flaugarnar myndu ekki komast í námunda við önnur sólkerfi fyrr en eftir ca. 40.000 ár þó að þær ferðist á um 60 þúsund kmk hraða, þannig að plöturnar myndu virka sem svokölluð tímahylki líkt og þau sem eru stundum grafin hér í jörðu. Plöturnar í flaugunum yrðu nákvæmlega eins, úr kopar en gullhúðaðar til varðveislu. Þá beið Sagan það erfiða verkefni að finna efni á þær. Hann valdi fólk í nefnd sem starfaði í næstum ár og útkoman var það sem mætti kalla Greatest Hits Jarðarinnar.

Carl Sagan.

Carl Sagan.

Ákveðið var að þrír fjórðu plötunnar yrði tileinkaður tónlist frá öllum heimshornum. Restin yrði raddupptökur og analog textar, teikningar og ljósmyndir. Á plötunni voru skilaboð frá Kurt Waldheim aðalritara Sameinuðu Þjóðanna og Jimmy Carter Bandaríkjaforseta. Forsetinn segir: „Þetta er gjöf frá litlum, fjarlægum heim, brot af hljóðum, vísindum, myndum, tónlist, hugsunum og tilfinningum okkar. Við erum að reyna að lifa af okkar tíma svo að við getum lifað inn í ykkar.“

Þá voru fluttar kveðjur á 55 tungumálum þar sem Nick Sagan, 6 ára sonur Carls, flutti kveðjuna á ensku fyrir hönd barna Jarðar. Það voru ýmis náttúruhljóð s.s. úr veðráttunni, dýraríkinu, vélum o.fl. og 116 myndir af stærðfræði formúlum, plánetum í sólkerfi okkar, fólki, dýrum, plöntum, borgum, samgöngutækjum, verkfærum og ýmsu öðru. Einnig var klukkutíma upptaka af heilabylgjum þar sem manneskja hugsaði um ýmsa hluti svo sem atburði í mannkynssögunni og mannlegar tilfinningar. Nefndarmenn völdu myndirnar vel og reyndu að setja sig í spor geimvera sem fengju þær í hendur. Vísvitandi var ákveðið að sleppa öllum myndum af stríði og fleiru sem gætu á einhvern hátt talist ógnandi. Þeir vildu ekki verða ábyrgir fyrir innrás geimvera.

back

Johann Sebastian Bach

Tónlistin er fyrirferðarmest á plötunni og reynt  var að endurspegla á sem breiðastan hátt menningu heimsins. Alls voru valin 27 tónverk m.a. frá Búlgaríu, Kongó, Perú og Nýju Gíneu. Klassísk tónlist er áberandi á plötunni og hún opnar á Öðrum Brandenborgar Konsert Bach.

Alls eru 7 klassísk verk eftir Bach, Beethoven, Mozart og Stravinsky. Þá var tónlist bandarískra blökkumanna einnig áberandi. Á plötunni er jazz-slagarinn Melancholy Blues fluttur af Louis Armstrong og hið ásækjandi blúslag Dark Was the Night, Cold Was the Ground með Blind Willie Johnson. Mesta athygli í fjölmiðlum fékk þó málsvari rokktónlistarinnar, Chuck Berry með laginu Johnny B Goode. Þjóðlagafræðingurinn Alan Lomax sem sat í nefndinni var andvígur valinu á laginu þar sem honum fannst rokktónlist einungis fyrir unglinga. Sagan svaraði því; „Það er mikið af unglingum á plánetunni“.

Nefndin vildi einnig hafa Bítlalagið Here Comes the Sun á plötunni en útgáfufyrirtækið EMI hafnaði því af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Þegar platan var fullgerð var ritað á hana: “Til allra höfunda tónlistar – allra heima, allra tíma.”

Voyager I og II eru ennþá að senda skilaboð til Jarðar. Voyager II flaug framhjá ystu plánetunni í sólkerfinu, Neptúnusi, árið 1989. Árið 2013 flaug Voyager I út úr sólkerfinu og áætlað er að II geri það á næstu árum en ekki er búist við að sambandið við þær haldi í meira en áratug í viðbót. Í dag er í gangi hópfjármögnunarverkefni á vefsíðunni Kickstarter um að gefa plötuna út á vínyl fyrir almenning. Hún mun koma út á næsta ári, á 40 ára afmæli Voyager verkefnisins.