IRON MAIDEN – KILLERS

Platan Killers á 35 ára afmæli í ár. Hún kom út í Bretlandi þann 2. febrúar árið 1981 og um hálfu ári síðar í Bandaríkjunum. Þetta var önnur stúdíóplata Iron Maiden á eftir sjálftitlaðri plötu sem kom út ári áður. Meðlimir hljómsveitarinnar voru óánægðir með hljómburðinn á fyrstu plötunni og leituðu því til hins reynda upptökustjóra Martin Birch sem unnið hafði með hljómsveitum á borð við Deep Purple og Rainbow. Upptökurnar fóru svo fram í Battery Studios í London. Þetta borgaði sig og Iron Maiden héldu samstarfinu við Birch áfram í áratug. Killers er töluvert frábrugðin bæði fyrstu plötunni og seinni plötum. Hún er hraðari, hrárri og þyngri en hljómburðurinn er ákaflega góður og bandið er þétt. Söngvarinn Paul Di’Anno hljómar ólíkt betur Killers en á Iron Maiden. Hann var þó rekinn úr hljómsveitinni þetta sama ár vegna ofdrykkju og eiturlyfjanotkunar. Iron Maiden eru ekki Mötley Crüe. Þetta var einnig fyrsta platan sem gítarleikarinn Adrian Smith spilaði inn á. Auk Di´Anno og Smith voru í hljómsveitinni Steve Harris á bassa, Dave Murray á gítar og Clive Burr á trommum.

Promotional portrait of British heavy metal group, Iron Maiden, 1981: (L-R) Steve Harris, Clive Burr, Paul Di'Anno, Adrian Smith, and Dave Murray. (Photo by Robert Ellis/Hulton Archive/Getty Images)

Kynningar Portrett af bresku þungarokksveitinni, Iron Maiden, 1981: (H-V) Steve Harris, Clive Burr, Paul Di’Anno, Adrian Smith, og Dave Murray. (Ljósmynd: Robert Ellis/Hulton Archive/Getty Images)

Það sem Killers er sennilega þekktust fyrir er umslagið sem breski listamaðurinn Derek Riggs hannaði. Lukkudýr hljómsveitarinnar, Eddie the Head sem upprunalega var teiknaður eftir grímu, var ekki nýtilkomið. Eddie prýddi umslag Iron Maiden og smáskífanna af þeirri plötu einnig. En á umslagi Iron Maiden er hann hálf líflaus líkt og uppvakningur eða maður með grímu. Á Killers er Eddie aftur á móti kominn með karakter. Karakter sem átti eftir að lifa með hljómsveitinni alla tíð síðan og koma m.a. fram í tölvuleikjum og á bjórflöskum. Hann er eitt auðþekkjanlegasta vörumerki sem nokkur hljómsveit heims á. Umslagið sjálft þótti djarft og umdeilanlegt á þeim tíma sem platan kom út, aðallega vegna þess að Eddie er að höggva einhvern óheppinn mann í spað með öxi. En öxin skiptir í raun litlu máli. Það er lýsingin, hárið og brosið á Eddie sem gerir umslagið svo áhrifamikið og eftirminnilegt. Þrátt fyrir að vera morðsjúkur og auk þess lifandi dauður þá er Eddie engu að síður heillandi persóna. Riggs hannaði öll plötuumslög fyrir Iron Maiden fram til ársins 1992 og vitaskuld prýðir Eddie þau öll.

Killers hefur verið margendurútgefin á vínyl í gegnum tíðina rétt eins og aðrar eldri plötur hljómsveitarinnar. Eins og áður var nefnt kom hún í fyrsta skipti árið 1981, gefin út af EMI plötufyrirtækinu. Hún var svo gefin út á ný árið 1985 samfara útgáfu á geislaplötu. Þegar geiladiskurinn varð allsráðandi form voru gefnar út ýmsar safnaraútgáfur af plötunni á vínyl. Má þar nefna útgáfu með umslagsmyndinni prentaða á plötuna sjálfa (1998), bleika útgáfu (2006) og útgáfu þar sem smáskífumyndirnar tvær eru prentaðar á sitthvora hlið plötunnar (2012).

Album-Killers_pink Record