LIFI SNARKIÐ

Það voru ekki margir sem sáu það fyrir að vínylplötusafn, sem finna má á þúsundum heimila á Íslandi, myndi ávaxtast eins og verðtryggð skuldabréf, sé horft þrjátíu ár aftur í tímann. Þannig er nú samt raunin, þegar kemur að vinsælum plötum, íslenskra og erlendra tónlistarmanna. Hafsteinn Hauksson hagfræðingur, gerði þessa stöðu að umtalsefni í grein um endurkomu vínylplötunnar.

Ófyrirséðar vinsældar

En þrátt fyrir alls konar óróa í hinu daglega efnahagslífi, og tækninýjungar þegar kemur að útgáfu tónlistar, þá er vínylplatan sífellt að sækja í sig veðrið sem vinsælt form útgáfu á tónlist. Hún hefur aldrei farið neitt, en vinsældir hennar á síðastliðnum árum voru ófyrirséðar.

Á síðustu fjórum árum hefur salan á vínylplötum aukist um 800 prósent á heimsvísu, og plötuspilarar njóta sífellt meiri vinsælda, enda falleg húsgögn samhliða því að glæða nærumhverfi sitt hljómfögru lífi. Í Bretlandi hefur áhuginn aukist jafnt og þétt en það er stærsti einstaki markaður fyrir vínylplötur í Evrópu. Þar seldust 2,1 milljónir vínylplatna í fyrra og má sjá á listanum yfir vinsælustu plöturnar, sem fjallað er um í fréttabréfi dagsins, að gamlar plötur njóta jafn mikilla vinsælda og þær sem koma út nýjar.

Lifandi tónlist

Vínylplatan er tímalaus snilld, og geymir lifandi tónlist.

Hinn 14. febrúar síðastliðinn opnaði fyrir nýja þjónustu fyrir vínylunnendur á Íslandi, þar sem þeir geta orðið áskrifendur að fréttabréfi Vínylsins, og tengst þannig afsláttarkerfi í helstu vínylverslunum landsins.

Í fréttabréfi Vínylsins, sem kemur út einu sinni í mánuði frá og með deginum í dag, verður fjallað um útgáfu íslenskra tónlistarmanna á vínyl – sem margir gera sér ekki grein fyrir hversu metnaðarfull og fjölbreytt er orðin – og skyggnst inn í vínylheiminn í New York, sem er fullur af sköpunarkröftum sem verka þvert á tónlistarstefnur. Einu sinni í mánuði verður plötubúð í borginni heimsótt og náið fylgst með nýjustu útgáfum á vínylplötum. Útgáfan er fjölbreytt og ánægjulegt frá því að segja, að þessari þjónustu hefur verið afar vel tekið. Væntingarnar voru ekki þær, að þetta yrði vinsældarefni, heldur frekar leið til að sameina hóp fólks sem hefur áhuga á vínylplötum og bjóða því leið til að tengjast vildarkjarakerfi í helstu plötuverlsunum.

Áskriftarverð fréttabréfsins, sem kemur í tölvupósthólf áskrifenda fyrsta dag hvers mánaðar klukkan 20:00, er aðeins 800 krónur á mánuði.

Afsláttarkjör fást síðan í Lucky Records, Smekkleysu, Geisladiskabúð Valda og þjónustu vinyl.is (búðu til þinn eigin vínyl). Þá fá áskrifendur einnig afsláttarkjör í Hljóðfærahúsinu og Tónabúðinni Akureyri, á öllum plötuspilurum og nálum, sem og afslátt í Ormsson á plötuspilurum.

Vínyllinn er þakklátur fyrir samstarf við þessi fyrirtæki, en þau hafa lengi – hvert með sínum hætti – sinnt þjónustu við vínylunnendur af metnaði, og ekki síst hugsjón. Metall, íslensk dægurtónlist, jazz, klassísk tónlist, rapp, rokk, hip hop, indí, pönk og popp. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og fá mánaðarlegan skammt af vínylandanum.

Með góðum vínylkveðjum.
Vínyllinn.