MEISTARAVERKIÐ SEM BARÐI ÚR HONUM BARNIÐ

Svavar Hávarðsson, blaðamaður, á fjölbreyttan feril að baki. Öll afrekin má með einum eða öðrum hætti rekja til Stöðvarfjarðar, held ég að mér sé óhætt að segja, þar sem hann sínar fjölskyldurætur og er uppalinn.

Vínyllinn fékk Svavar til að nefna sína uppáhaldsvínylplötu, og hvernig hann komst í kynni við hana.

SVAVAR HÁVARÐSSON

SVAVAR HÁVARÐSSON

Svarið var svona: „Það er helgarfrí í Alþýðuskólanum á Eiðum. Böggi bróðir stormar í húsið með einhverjum vini sínum. Hann heilsar mér ekki beint, enda kannski ekki pönkara siður en hendir í mig 60 mínútna kassettu og segir ákveðið: „Hlustaðu á þetta!“

Svo er hann farinn aftur. Næstu vikurnar fer spólan ekki úr tækinu, en af pönkgrautnum sem þar er að finna er alltaf sama lagið spilað, aftur og aftur.

The Guns of Brixton
Árið var 1980. Nokkrum mánuðum seinna var ég staddur í Reykjavík til að láta herða upp á járnaruslinu í kjaftinum á mér. Eftir klukkutíma í stólnum uppi í Domus Medica stend ég við afgreiðsluborðið í Skífunni á Laugarveginum og mér er réttur allra fyrsti vínyllinn sem ég eignaðist – London Calling. The Clash!

Ég man að ég hljóp niður Laugarveginn, eins og það biði mín plötuspilari í Hressingarskálanum þangað sem förinni var heitið. Rjómaterta og heitt súkkulaði, og starað á umslagið. London í bleiku. Calling í grænu. Paul Simonon að mölva bassan sinn á tónleikum í New York’s Palladium, gjörsamlega brjálaður yfir því hvað liðið í húsinu hagar sér vel. Myndin ekki einu sinni í fókus – samt flottasta cover allra tíma.

Ég væri að ljúga ef ég segðist hafa hlustað á London Calling þúsund sinnum. Ég hef hlustað miklu oftar á hana en það – oft gengdarlaust heilu daganna. Þetta meistaraverk barði úr mér barnið. Þegar ég hugsa til baka, þá er allt fyrir og eftir London Calling.

Auðvitað hélt ég þá að ég væri að hlusta á pönk – þetta var jú Clash. En London Calling er auðvitað rokk – og svo miklu, miklu fleira. Þar er auðvitað pönk en líka reggí, rokkabillí og djass. En líka blús og ska.

Lögin eru hvert öðru betra. Hvar skal byrja og enda? En The Guns of Brixton er þó alltaf langbest.“