NEBRASKA – BRUCE SPRINGSTEEN

Á fyrri hluta níunda áratugarins var Bruce „The Boss“ Springsteen ein stærsta rokkstjarna heims. Þá stöðu hafði hann öðlast með því að spila upplífgandi rokkslagara sem höfðuðu sérstaklega vel til amerískrar verkamannastéttar. Á seinni tímum hefur Springsteen leyft sér að prófa ýmislegt í tónlist en á þessum tíma þótti platan Nebraska vera hálf ótrúlegt hliðarspor. Hin órafmagnaða þjóðlagaplata kom út árið 1982, mitt á milli platnanna The River (1980) og Born in the USA (1984) sem báðar njóta sín best á stórum íþróttaleikvöngum. Nebraska átti upprunalega ekki að vera plata heldur var þetta samansafn af demó-upptökum sem Springsteen tók einn upp á kasettuupptökutæki heima hjá sér. Upptökurnar tók hann svo með sér í hljóðver þar sem hann tók upp lögin með hljómsveit sinni, The E-Street Band. Það var gítarleikari bandsins, Steve Van Zandt, sem benti Springsteen á að upptökurnar sem slíkar væru einstakar og flutningur hljómsveitarinnar gerði ekki mikið fyrir lögin. SJÁ HÉR. Springsteen samsinnti þessu sem kom töluvert á óvart. Hann er nefnilega hálfgerður fullkomnunarsinni þegar kemur að upptökum, dvelur lengi í hljóðveri og hleypir falsknótum ekki í gegn.

Eftir minniháttar blöndun á demó-upptökunum kom Nebraska út árið 1982, alveg hrá. Þetta var allt annars konar plata en Springsteen hafði áður gefið út. Ekki bara vegna þess að hún var órafmögnuð heldur einnig vegna andrúmsloftsins á henni. Umslagið segir sína sögu, hér er drungi, auðn og einsemd. Springsteen hefur sjálfur sagt að platan fjalli um einangrun og aftenginu, eitthvað sem hann sjálfur hafði þurft að takast á við sem ungur maður. Lögin á plötunni fjalla að miklu leyti um glæpi og einhvers konar feigð og sum lögin eru byggð á sönnum atburðum. Sem dæmi má nefna að titillagið „Nebraska“ fjallar um hinn tvítuga Charles Starkweather sem framdi fjöldamorð ásamt kærustu sinni í Nebraska fylki árið 1958. SJÁ HÉR. Springsteen hafði reyndar fjallað um þetta tiltekna mál áður, í laginu „Badlands“ frá 1978. Hið dimma og hráslagalega andrúmsloft plötunnar fékk hann að miklu leyti að láni frá raf-pönksveitinni Suicide. Þá eru augljós áhrif frá mörgum af helstu þjóðlaga og country-tónlistarmönnum seinustu aldar s.s. Woody Guthrie, Hank Williams og Bob Dylan. Einnig skín í gegn hinn drungalegi country-smellur Lefty Frizzell „The Long Black Veil“ frá 1959, lag sem Springsteen hefur sjálfur margoft spilað á tónleikum.

Nebraska var áhætta bæði út af upptökuaðferðinni og umfjöllunarefninu. Engu að síður borgaði þetta sig, platan fékk frábæra dóma og hún rokseldist. Einnig breikkaði Springsteen aðdáendahóp sinn með plötunni og fékk inn fólk sem aldrei myndi dilla sér við „Dancing in the Dark“. Í dag þykir Nebraska óumdeilanlega mest „hip“ plata Springsteen. Hún hefur einnig haft mikil áhrif á aðra tónlistarmenn, bæði í rokki, country, þjóðlagatónlist og jafnvel poppi. Springsteen hefur gefið út tvær frumsamdar þjóðlagaplötur síðan, The Ghost of Tom Joad (1995) og Devils & Dust (2005), en ólíkt Nebraska þá voru þær báðar teknar upp í hljóðveri. Þær þykja ágætar, sér í lagi sú fyrrnefnda, en ná ekki þeim stalli sem Nebraska situr á. Sennilega hefur Springsteen komist næst þessari sömu nöpru stemningu með laginu „Dead Man Walking“ úr samnefndri kvikmynd frá 1995. Nebraska stendur þó upp úr. Hún er sérstök að því leyti að hún ásækir mann, manni stendur hreinlega ekki á sama.