QUEEN – JAZZ

Eftir að hafa gefið út tvær af mikilfenglegustu plötum rokksögunnar, A Night at the Opera (1975) og A Day at the Races (1976), var hljómsveitin Queen á hápunkti frægðar sinnar. Platan News of the World (1977) þótti mun síðri en innihélt þó risaslagarana “We Will Rock You” og “We Are the Champions” sem eru enn notuð við hin ýmsu tækifæri. Meðlimir Queen voru því orðnir alveg ofboðslega ríkir og þar af leiðandi þurftu þeir að borga breska ríkinu himinháa skatta. Sumarið 1978 ákváðu þeir því að flytja til Frakklands og taka upp sína sjöundu plötu Jazz þar í Super Bear stúdíóinu í Nice. Þeir voru ekki eina ofurgrúppan til að gera þetta því að ári seinna flúðu Pink Floyd skattmann og tóku upp The Wall hjá Super Bear.

Vínyllinn Jazz með Queen

Vínyllinn Jazz með Queen

Queen leyfðu sér að prófa ýmsa hluti á Jazz. Hljómsveitin var á tímamótum og viðbúið að þeir gætu ekki haldið sömu velgengni endalaust áfram. Platan er nokkuð undarlegur bræðingur af tónlistarstefnum en þrátt fyrir titilinn er enginn jazz á henni. Opnunarlagið “Mustapha” setur tóninn á plötunni. Það er eins konar blanda af óskilgreindri þjóðlagatónlist frá miðausturlöndum og hröðu rokki og enginn virðist vita nákvæmlega á hvaða tungumáli það er. “Dreamer´s Ball” er letilegur blússlagari. “Fun It” er hálfgert diskó eða funk lag. Svo eru þarna vitaskuld hröð rokklög og ballöður sem Queen voru orðnir frægir fyrir að semja. Platan seldist mjög vel enda eru hittarar á henni, þá sérstaklega lagið “Don´t Stop Me Now” sem hefur verið m.a. verið notað í mörgum auglýsingum. En gagnrýnendur voru tvístígandi gagnvart henni og sumir hreinlega móðgaðir.

Meðlimir Queen

Meðlimir Queen

Það sem vínylplatan Jazz er þó þekktust fyrir er plaggatið sem fylgdi með henni. Á því sjást 65 naktar dömur á reiðhjólum. Þær voru fengnar til þess að hjóla um á Wimbledon leikvanginum í Lundúnum og upptökur af því voru nýttar í myndband við lagið “Bicycle Race”. Lagið var gefið út á smáskífu með “Fat Bottomed Girls” og mynda þessi tvö lög eina, mjög umdeilda, heild. Meðlimir Queen voru sakaðir um karlrembu og smekkleysi. Plaggatið þótti afar klámfengið og var bannað í Bandaríkjunum. Amerískir aðdáendur gátu þó pantað plaggatið fræga frá Bretlandi. Í dag þykir uppátækið almennt nokkuð fyndið og er einn kafli í sögu þessarar litríku hljómsveitar.

65 naktar dömur á reiðhjólum hjóla um á Wimbledon leikvanginum í Lundúnum

65 naktar dömur á reiðhjólum hjóla um á Wimbledon leikvanginum í Lundúnum