Skip James – Snillingurinn sem fannst á spítala

Það var hrein lukka að við fengum að kynnast Skip James. Ungir blúsáhugamenn „fundu“ hann á spítala í Mississippi árið 1964 þar sem aldraður maðurinn hrjáðist af krabbameini. Skip hafði þá verið gleymdur í rúmlega 30 ár. Hann ólst upp í Mississippi á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Tónlist átti alltaf hug hans allan en blúsinn borgaði ekki reikningana. Skip vann ýmis störf og ekki alltaf lögleg, þar á meðal seldi hann sprútt, stundaði fjárhættuspil og var melludólgur. Tónlist hans þótti einstök, einlæg og ásækjandi. Því var hann hvattur til að taka upp sem hann og gerði loks árið 1931 hjá útgáfufyrirtækinu Paramount Records (ekki tengt kvikmyndaverinu) í Grafton í Wisconsin fylki.

Keith Brown as Skip James6

Skip James tók upp alls 18 lög í Grafton sem gefin voru út á 78 snúninga plötum. Þar á meðal voru lög á borð I´m So Glad, Cypress Grove Blues, Hard Time Killing Floor Blues og óumdeilanlega það þekktasta Devil Got My Woman. Þessar plötur þykja algerir safngripir í dag og mjög erfitt að nálgast upprunalegu eintökin. Salan hjá Skip gekk aftur á móti mjög brösulega enda voru Bandaríkin í miðri kreppu. Hann hafði lagt allt sitt í upptökurnar og vonbrigðin voru svo mikil að hann lagði gítarinn á hilluna. Tiltölulega lítið er vitað um næstu áratugi hjá Skip. Hann vígðist prestur, átti börn og vann við ýmis störf víðs vegar um ameríska suðrið. Hann tróð meira að segja upp af og til en í hugum flestra var hann algjörlega gleymdur. Sjá hér.

Skip James Cover

Þegar Skip fannst aftur var blúsinn, og þá sérstaklega hinn upprunalegi delta-blús, kominn í tísku. Mikið af ungu hvítu fólki var farið að hlusta á blús og aðra þjóðlagatónlist. Skip kom fram á einni stærstu þjóðlagahátíð heims, Newport Folk Festival árið 1964 og áhorfendur voru algerlega gripnir. Röddin var aðeins hærri en hún hafði verið 33 árum fyrr en gítarleikurinn og tilfinningin var nákvæmlega sú sama. Fólk gerði sér grein fyrir því að þetta var sögulegur viðburður. Skip lifði einungis í 5 ár til viðbótar en á þeim tíma tók hann upp lög, bæði gömul og ný, og upprunalegu útgáfurnar  frá 1931 voru endurútgefnar. Hann lifði þó aldrei hátt og átti ávallt í fjárhagskröggum. Skip James er í dag talinn einn af áhrifamestu blústónlistarmönnum sögunnar og upptökurnar frá 1931 þykja fjársjóður. Hann fellur því í flokk með Van Gogh, Bach og Kafka, þ.e. snillingar sem uppgötvuðust allt of seint.

Skip James