The Pogues –

Rum, Sodomy & the Lash

Þjóðlagapönkið fæddist í Bandaríkjunum upp úr 1980 með hljómsveitum á borð við Violent Femmes. Þá var hefðbundnum þjóðlögum blandað saman við framsækið pönk, stundum órafmagnað. Á Bretlandseyjum lá beinast við að nota írska þjóðlagatónlist til þessa brúks og það gerði einmitt enska hljómsveitin The Pogues. Fyrsta plata þeirra Red Roses for Me kom út árið 1984 og vakti nokkra athygli en það var önnur platan Rum, Sodomy & the Lash, sem kom út ári seinna, sem markaði djúp spor í sögu bæði þjóðlaga-og pönktónlistar. The Pogues spiluðu á hefðbundin órafmögnuð þjóðlagahljóðfæri s.s. banjó, harmonikku, flautur o.fl. en pönkið kom aðallega frá söngvaranum og aðallagahöfundinum Shane MacGowan sem hafði verið í nokkrum pönkhljómsveitum áður. Margt hefur verið skrifað um MacGowan, t.d. að hann sé listamaður í sjálfstortímingu og að rödd hans hljómi eins og mennskur öskubakki. Það er þó ekki hægt að neita því að hann var drifkrafturinn og helsta ástæða fyrir velgengni The Pogues. Þrátt fyrir allt hefur hann mikla dýpt og nærgætni í flutningi sínum. Stóran hlut velgengni plötunnar má rekja til hljóðblandarans (og popparans) Elvis Costello. Hann sóttist eftir því að ná fram hráum flutningi og tókst það vel. Við upptökur felldu hann og bassaleikari The Pogues, Cait O´Riordan, hugi saman og giftust ári seinna.

the-pogues-1985

Titill plötunnar Rum, Sodomy & the Lash og umslag segja sína sögu um innihaldið og eru bæði vísanir í gamlan tíma. Titillinn er vísun í kvitt sem hafður var um skipverja í breska flotanum á 19. öld, þ.e. um ólifnað og harðræði. Umslagið er í grunnin franskt málverk frá árinu 1819 þar sem búið er að skeyta andlitum hljómsveitarmeðlima inn í. Málverkið heitir La Radeau de la Meduse eftir Theodore Gericault sem sýnir brak orrustuskips úr Napóleons-styrjöldunum og örvæntingarfulla skipverja. Innan í umslaginu má svo sjá meðlimi The Pogues klædda í 19. aldar flotabúninga. Tónlistin á plötunni er þó alls ekki bundin við sjómennsku. Fremur er reynt að draga fram ákveðið andrúmsloft sem einkenndi sjómennsku á þessum tíma, þ.e. drykkju, nautnir, ævintýragirni og gleði en jafnframt ólifnað, grimmd, sjúkdóma og sorgir. Lögin og textarnir bera þess glöggt merki.

jean_louis_theodore_gericault_-_la_balsa_de_la_medusa_museo_del_louvre_1818-19

Málverkið La Radeau de la Meduse eftir Theodore Gericault

Á plötunni er vitaskuld mikið um drykkjulög. Til að mynda þeirra þekktasta lag Sally MacLennane (sem er tegund af dökkum bjór). Sally MacLennane er gott dæmi um þann tilfinningalega rússíbana sem platan er. Lagið er hratt og hressleikinn lekur af því en textinn hefur ákaflega sorglegan undirtón. Á meðal annarra þekktra frumsaminna laga má nefna The Old Main Drag og A Pair of Brown Eyes sem eru þó mun rólegri.

Auk þeirra eigin laga eru þjóðlög bæði gömul og ný. Má þar nefna Dirty Old Town frá árinu 1949 eftir enska þjóðlagasöngvarann Ewan MacColl og Jesse James, gamalt amerískt þjóðlag sem fjallar um útlagann alræmda úr villta vestrinu.

Meistarastykki plötunnar er lokalagið And the Band Played Waltzing Mathilda. Lagið var samið af ástralska þjóðlagasöngvaranum Eric Bogle árið 1971 og það fjallar um orrustuna við Gallipoli milli Ástrala og Nýsjálendinga annars vegar og Tyrkja hins vegar í fyrri heimstyrjöldinni. Hin blóðuga orrusta endaði í tapi fyrir bandamenn en talið er að eiginleg þjóðarvitund Ástralíu og Nýja Sjálands hafi kviknað vegna hennar. Lagið er um 8 mínútur að lengd og textinn hörð ádeila á stríð og afleiðingar þess. Flutningur Bogle er ákaflega ljúfur og í anda enskrar þjóðlagahefðar. En Shane McGowan gerir þetta lag að sínu. Hann gefur laginu bæði sál og þyngd og lagið hljómar eins og hann hafi í alvöru verið þarna. Rum, Sodomy & the Lash er því ekki samansafn af drykkjuvísum, þó eflaust sé hægt að lyfta glasi við hvert einasta lag. Þetta er plata sem segir sögur, vekur upp margs konar tilfinningar og hefur þýðingu í sjálfu sér.