The Velvet Underground & Nico

Fyrsta plata hljómsveitarinnar The Velvet Underground er ein af áhrifamestu rokkplötum sögunnar. Þó er platan ekki þekktust fyrir tónlistina sjálfa heldur umslagið. Það var hannað af sjálfum Andy Warhol og er í dag eitt af allra þekktustu plötuumslögunum, í deild með The Dark Side of the Moon eftir Pink Floyd, Abbey Road eftir Bítlana og Nevermind eftir Nirvana. Það er ekki víst að hljómsveitin The Velvet Underground og forsprakki þeirra, Lou Reed, hefðu nokkurn tímann komist á kortið ef ekki hefði verið fyrir Warhol. Warhol varð heimsþekktur í upphafi sjöunda áratugarins fyrir framúrstefnuleg málverk og kvikmyndir, svokallaða popplist.

Hljómsveitin var tiltölulega nýstofnuð þegar Reed og félagar komust í kynni við Warhol árið 1965. Warhol sá eitthvað við þá og gerðist umboðsmaður þeirra. Hann kynnti þá fyrir þýsku söngkonunni Nico og kom þeim öllum fyrir á fjöllistasýningunni Exploding Plastic Inevitable sem var sett upp víða í Norður Ameríku á árunum 1966-1967. Árið 1966 kom Warhol The Velvet Underground og Nico fyrir í hljóðveri þar sem samnefnd plata var tekin upp. Warhol útvegaði þeim einnig útgáfusamningi hjá Verve Records. Hann var sjálfur titlaður sem upptökustjóri en kom ekkert nálægt upptökunum. Hljómsveitin hafði fullt listrænt frelsi yfir afurðinni. Fyrir utan að borga reikningana var helsta framlag Warhol á sjálfri plötunni umslagið.

the-velvet-underground-and-nico-1

Warhol kom úr auglýsingabransanum og verk hans bera keim af því, s.s. hið fræga listaverk Campbell´s súpudósirnar. Málverkið sem hann gaf The Velvet Underground var af einum gulum banana á hvítum fleti. Í dag er umslagið þekkt með titli plötunnar vinstra megin við bananann en þegar platan kom út upprunalega árið 1967 var einungis nafn Warhols til staðar auk textans: „Peel slowly and see“. Þetta var vegna þess að í fyrstu útgáfunni var bananahýðið límmiði sem hægt var að flysja af. Undir honum var bananaaldinin fleskbleik að lit. Flysjaður bananinn þykir því nokkuð kynferðislegur og vafalaust hefur mörgum brugðið við að taka „hýðið“ af. Lou Reed minnist þess að þessi banani hafi verið notaður í erótíska listasýningu. SJÁ HÉR Aðrir hafa túlkað bananann sem vísun í eiturlyfjaneyslu, sbr. að reykja bananahýði, en nokkur lög á plötunni fjalla um notkun eiturlyfja. SJÁ HÉR

Límmiðinn flækti framleiðsluferlið umtalsvert og olli því að útgáfa plötunnar tafðist þó nokkuð. Límmiðann þurfti að setja á með höndum og því var ákveðið að sleppa honum í endurútgáfum á plötunni. Fyrsta útgáfa af plötunni þykir því mikill safngripur í dag en límmiðarnir eru yfirleitt frekar snjáðir og illa farnir.

velvet-underground-album

Bakhlið plötunnar olli hljómsveitinni nokkrum vandræðum. Hún sýnir hljómsveitarmeðlimina og ef að er gáð má sjá andlit manns á hvolfi í hári Lou Reed. Sá maður hét Eric Emerson, leikari sem hafði unnið töluvert með Andy Warhol en ekki gefið leyfi fyrir þessari mynd. Emerson, sem var fjárþurfi sökum eiturlyfjaneyslu, lögsótti Verve Records. Útgáfufyrirtækið neitaði hins vegar að borga og því var svörtum límmiða skellt yfir andlit Emersons á þeim umslögum sem var búið að prenta og myndinni svo breytt í endurútgáfum, sem töfðust fyrir vikið. SJÁ HÉR Í nýjum vínyl endurútgáfum af plötunni hefur þó bæði bananalímmiðanum og myndinni af Eric Emerson verið bætt aftur við. Bananinn er í dag orðinn að tískufyrirbæri rétt eins og Rolling Stones varirnar og Che Guevara. Hann má sjá t.d. á stuttermabolum, handtöskum og farsímahulstrum. Árið 2012 deildu meðlimir Velvet Underground við Warhol-stofnunina (sem sér um erfðabú hans) um notkunina á myndinni frægu. Það mál var leyst utan dómstóla og niðurstaðan ekki gefin upp.