UNDIR RAMONES-ÁHRIFUM

Queens safnið (Queens Museum) í New York borg, eitt helsta kennileiti Queens-hverfisins, er þessa daga vettvangur stórkostlegrar sýningar sem tileinkuð er djúpstæðum áhrifum The Ramones á samtíma sinn.

Hönnun
Það dylst engum sem skoðar sýninguna, að The Ramones er ekki aðeins áhrifamikið pönk- og rokkband, heldur einskonar sjálfstæður tískustraumur og hönnunarkraftur. Í rauninni er tónlist Ramones – eins mögnuð og hún er – í aukahlutverki á sýningunni. Það er hinn heildræni hönnunarþáttur sem býr til rammann um 40 ára sögu bandsins, og þá ekki síst frumleg og vel hönnuð plötuumslög, boli og varning.

Ramones varð að sterku vörumerki fyrir þrjátíu árum, sem enn í dag sést víða. Fólk sem hefur aldrei hlustað á Ramones klæðist bolum sem eru merktir bandinu. Það er þykir stöðutákn, til marks um „frelsi og hörku“ eins og það er orðað á sýningunni.

Birtust allt í einu
Í apríl 1976 sendir The Ramones frá sér sínu fyrstu breiðskífu sem bar nafn hljómsveitarinnar. Hún fékk misjafna dóm í fyrstu, enda var tónlistarsenan í Bandaríkjunum ekki alltof móttækileg fyrir pönki. Breska pönkið fór sigurför um ýmsa markaði, en ekki alla. Til dæmis voru dyrnar inn á Bandaríkjamarkað lengi vel svo til alveg lokaðar, þegar kom að dreifingu og markaðssetningu. En aðdáendur finna sér yfirleitt leiðir til að svala forvitni þegar kemur að tónlist, og þannig var það líka með evrópska pönkið.

Rauði þráðurinn
The Ramones var samt aldrei að reyna að gera neitt annað, en að búa til eigin lög og eigin stíl. Vissulega undir áhrifum frá mörgum öðrum, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi, en rauði þráðurinn var þeirra eigin. „Eins og Warhol, þá notaði The Ramones „branding“ sem listform,“ segir á einu skiltinu á veggnum, þar sem sýningin er í gangi. Ólíkt því sem margir eflaust halda, sökum villimannslegrar hegðunar meðlima bandsins oft á tíðum, þá var mikil vinna lögð í allra ytri umgjörð bandsins frá fyrsta degi. Metnaðarfullar kynningar, oft með djúpum skilaboðum, fylgdu bandinu á ferlinum allan heim. Fallega hannaðar myndir, sem þykja listaverk sem ljósmyndir í dag, voru inn í plötuumslögum, og textabrot bandsins hafa verið notuð mikið í kvikmyndum og bókum.

Sýningin ber heitið: Hey! Ho! Lets Go!, og vísar til þekkts textabrots úr lagi þessarar mögnuðu hljómsveitar. Allir upprunalegu meðlimir hljómsveitarinnar eru dánir. Sá síðasti dó 2014. Þau báru alla tíð eftirnafnið Ramone – sem var hluti af listaverkinu – þó rétt eftinöfn þeirra væru önnur. Joey (söngur), Johnny (gítar), Dee Dee (bassi) og Tommy (trommur) stofnuðu hljómsveitina 1974, í vinnuskúr í Queens. Þar hittust meðlimir, lásu teiknimyndasögur, spiluðu tónlist og djúsuðu.

Upp úr þessum rótum varð The Ramones til, og hefur hljómsveitin þrykkt sig í sögubækurnar varanlega.

Queens safnið er stórkostlegt. Frumlegt og metnaðarfullt, og laust við allan elítublæ, þrátt fyrir að vera risavaxið. Fólk sem hefur áhuga á hönnun, tónlist, samtímasögu og list, ætti að gera sér ferð til að sjá Ramones-sýninguna. Hún verður opin til 31. júlí.