Undrabarnið afkastamikla

„Er Tupac enn á lífi?“ Þetta er bæði samsæriskenning og brandari sem hefur gengið í 20 ár síðan að rapparinn ungi var skotinn til bana eftir hnefaleikabardaga í Las Vegas. Hann var einungis 25 ára gamall en þegar búinn að gefa út 4 stúdíóplötur og orðinn ein stærsta rappstjarna heims. Seinasta platan sem hann gaf út áður en hann dó, hin tvöfalda All Eyez on Me er ein af mest seldu rappplötum allra tíma. Eftir að hann lést komst hann í nokkurs konar dýrlingatölu hjá mörgum. Hann var kallaður píslarvottur, byltingarmaður, skáld, heimspekingur, aktívisti og andlegur leiðtogi. Rímur hans þóttu djúpar og innihalda einhvern sannleika sem fáir urðu ósnortnir af. Margir telja hann einn allra áhrifamesta og mikilvægasta rappara sögunnar. Helsta ástæðan fyrir því að sumir telja hann enn á lífi er að lík hans var brennt innan við sólarhring eftir að hann lést. Einhverjir hafa efast um að líkið hafi verið af Tupac. Önnur ástæða er hversu mikið af efni hefur komið út eftir andlát hans. Alls hafa komið út 7 stúdíóplötur með nýju efni eftir andlátið auk safnplötunnar Greatest Hits frá 1998 sem innihélt einnig nýtt efni. Þar að auki hafa komið út þrjár kvikmyndir sem hann lék í, eftir andlát hans.

402866-copy-2

En ástæðan fyrir allri þessari útgáfu er einfaldlega sú að við andlát Tupacs, þann 13. september árið 1996, voru til staflar af óútgefnu efni eftir hann. Mest af þessu var tekið upp seinasta árið sem hann lifði en ein platan, The Don Killuminati: The 7 Day Theory, var reyndar fullgerð og tilbúin til útgáfu þegar hann lést. Nákomnir sögðu að hann hefði hreinlega verið óstöðvandi á þessum tíma, líkt og hann vissi hvað væri í vændum og vildi koma sem mestu efni frá sér áður en hann hirfi frá. Óvenju mikið af efninu inniheldur vísanir í dauðann. Snoop Dogg, sem var á samning hjá Death Row Records eins og Tupac, segir:

Hann vann eins og fjárans veðhlaupahestur. Það voru kannski 30 gaurar í stúdíóinu. Tupac skipaði þessum og þessum og þessum að vera með í ákveðnu lagi. Svo þegar það var búið hlustaði hann ekki einu sinni á það heldur byrjaði á því næsta. Kannski skrifuðu þeir það á staðanum og svo fór Tupac í klefann og kláraði það. Þeir gerðu kannski þrjú lög á einum klukkutíma. Hann hlustaði ekki á nein af þeim.

snoop-pac-copy

Flestar plöturnar sem gefnar voru út eftir andlátið seldust í milljónum eintaka og þrjár af þeim, The Don Killuminati, Until the End of Time og Loyal to the Game komust á topp ameríska metsölulistans. Greatest Hits varð svo mest selda plata Tupacs frá upphafi. Eftir hinn 25 ára gamla Tupac Shakur liggja því samanlagt 11 stúdíóplötur og margar af þeim tvöfaldar. Magnið hefur aftur á móti ekki komið niður á gæðunum sem gefur til kynna að Tupac hafi verið undrabarn, bæði í textagerð og flutningi. Hann var glysgjarn á köflum eins og flestir rapparar en undirliggjandi voru ávallt skilaboð um jafnrétti, kynþáttahatur, fátækt, ofbeldi og fleira sem hann þekkti vel úr nærumhverfi sínu.

tupac1