VERK PINCE ENDURÚTGEFIN Á VÍNYL

Þann 21. apríl síðastliðinn lést poppgoðsögnin Prince Rogers Nelson, betur þekktur sem einfaldlega Prince. Prince verður minnst sem tónlistarsnillings sem fór sínar eigin leiðir og hafði mikil áhrif á aðra tónlsitarmenn. Hann var þekktur fyrir að spila á hvaða hljóðfæri sem er og að geta tileinkað sér mismunandi tónlistarstefnur. Hans verður einnig minnst sem einstaks lagasmiðs og upptökustjóra. Prince seldi plötur í milljónavís og vann flest þau verðlaun sem tónlistarmaður getur unnið sér inn. Fráfall hins 57 ára gamla Prince er því þungt högg fyrir tónlistarheiminn sem er enn að syrgja aðra goðsögn, David Bowie, sem lést fyrr á árinu.

2014Prince_Getty118108802_300514.article_x4

En 2016 verður ekki einungis sorgarár fyrir aðdáendur Prince því að í febrúar var það tilkynnt að allar sólóplötur hans sem hann gaf út hjá útgáfufyrirtækinu Warner Bros yrðu endurútgefnar á vínyl. Plöturnar verða gefnar út í tímaröð og sú fyrsta, For You frá árinu 1978, kom í verslanir 26. apríl, einungis fimm dögum eftir andlát hans. Prince tók plötuna upp sjálfur og spilaði á öll 29 hljóðfærin sem koma við sögu auk söngs vitaskuld. Hann hafði algert listrænt frelsi yfir afurðinni sem er stórmerkilegt í ljósi þess að platan var gefin út af stóru plötufyrirtæki og að hann var einungis 19 ára gamall þegar hún kom út. For You fór ekki hátt á vinsældarlistum en hún vakti engu að síður athygli á listamanninum og ýtti úr vör einum af merkilegustu tónlistarferlum samtímans.

Prince-For_You-Frontal

Það er óvíst hvaða áhrif sviplegt dauðsfall Prince muni hafa á útgáfurnar en fyrirfram var búist við að ekki yrði langt á milli útgáfna. Því ætti ekki að vera langt þar til vinsælli plötur á borð við Prince (1979)og Controversy(1981) komi út og svo þar á eftir hans stærstu plötur, 1999 (1982) og Purple Rain (1984). Prince gaf út alls 39 stúdíóplötur og þar af 21 hjá Warner Bros. Restina gaf hann út sjálfur og óvíst hvort að þær plötur verði endurútgefnar nú. Plöturnar eru mjög misauðfáanlegar, þær stærstu hafa verið endurútgefnar áður á vínyl en safnarar bíða nú í eftirvæntingu eftir fyrstu plötunum eins og For You sem hefur ekki verið pressuð síðan á níunda áratugnum. Litlar upplýsingar hafa komið fram varðandi útgáfurnar, t.a.m. hvort eða hversu mikið hefur verið átt við upptökurnar sjálfar og hvort umslögin verða í upprunalegum stíl eða útfærð á nýjan máta. Ljóst er þó að árið 2016 verður minnistætt fyrir aðdáendur Prince og vínylsafnara.

Prince+For+You+3397b