VÍNYLLINN MÆLIR MEÐ …

…að fólki dragi nú fram gamla plötusafnið og setji Risaeðluna á fóninn. Mögnuð endurkoma sveitarinnar á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður mun sitja lengi í gestum, ef marka má viðbrögð við tónleikum sveitarinnar og myndbönd sem tekin voru upp á tónleikunum. Sveitin hefur blessunarlega engu gleymt, og greinilega mikið inni. Hver veit nema að það sé hægt að þrýsta nógu stíft á sveitina svo hún komi frá sér nýrri plötu. Risaeðlan snýr aftur. 

…plötu hins tólf ára gamla djass píanóleikara Joey Alexander, sem tilnefndur var til Grammy verðlauna í ár. Fyrsta plata hans, My Favorite Things, er ekki bara athyglisverð, vegna þess hve hæfileikaríkur þessi strákur frá Indónesiu er, heldur virkar hún ferskur blær í djass-heiminum. Spilamennskan er afslöppuð og melódísk, en inn á milli leyfa frábærir hljóðfæraleikarar, sem eru stráknum til halds og traust, sér að láta gamminn geysa og skapa hljómaganga sem eru umluktir dulúð og krafti.